Enn af menningarmálum

Fór í leikhúsið hér á Akureyri í gær og sá leikritið Svartan kött. Alveg frábær leikrit, nokkuð blóðugt en sýndi manni vel tilgangsleysi ofbeldis. Fjórir lágu í valnum vegna kattar sem haldið var að hefði verið drepinn en kom svo í leitirnar í lokin, hafði farið á flakk. Er að fara út að borða í kvöld, þannig að ég er á fullu við að hafa það gott á Akureyri.

Finnst gott framtak hjá hópi bæjarbúa á Ísafirði að blása til fundar um málefni fjórðungsins og finnst frábært að frumkvæðið komi frá fólkinu sjálfu. En er sammála Henry Bæringssyni um að ef menn eru óánægðir og finnst lítið hafa verið gert, þá verða menn að skipta um fólk og stefnu í brú ríkisvaldsins. Til þess hafa Vestfirðingar vald þann 12. maí næstkomandi.  Ef menn gera það ekki, þá virðast menn bara vera sáttir við þá stjórnarstefnu sem í gangi hefur verið undanfarin 12 ár.

Erum við of hrædd við að breyta? Við vitum hvað við höfum en ekki hvað við fáum og hvort það er betra eða verra en það sem fyrir er, verður hver og einn að meta fyrir sig, ekki satt?

 


Af bæjarmálum og menningarmálum!

Nú er ég, ásamt maka, stödd á Akureyri. Við hjónin ákváðum að fara svona menningarreisu og Akureyri varð fyrir valinu, sennilega vegna þess að þar þekkjum við eiginlega engann og getum verið í friði og afslöppun án þess að vera með samsviskubit yfir því að heimsækja ekki ættingja og vini. Reyndar býr Sigmundur Guðmundsson og fjölskylda hér og förum við með þeim í leikhús í kvöld og út að borða annað kvöld.

Ég sit hér við eldhúsborðið í íbúðinni sem við erum með á leigu og horfi út um gluggann á allan snjóinn sem kyngdi niður í gærkveldi og vona að ekki komi meira. Mér finnst þetta bara orðið gott og vonast til að fari bara að vora sem fyrst.  Spáin er víst ekki góð fyrir sunnudaginn en þá ætlum við til Sauðárkróks og gista eina nótt hjá Margréti og Rúnari.  Mánudagsspáin er ágæt, þannig að maður ætti að komast heim þá.

Fyrir viku, nánar tiltekið, fimmtudaginn 1. mars var bæjarstjórnarfundur og var þriggja ára áætlunin m.a. til umræðu.  Nokkarar umræður spunnust um hana og taldi fulltrúi minnihlutans, Sölvi Sólbergsson, hana ekki vera nægilega stefnumarkandi. Hann upplýsti okkur hin að á síðasta kjörtímabili, hefði þáverandi meirihluti tekið meðvitaða ákvörðun um það að gera ekki neitt, þ.e. fara ekki í neinar fjárfestingar, setja allt viðhald á "hold", nota Orkubúspeningana í reksturinn og vona að ástandið færi nú að lagast. En þrátt fyrir þetta allt, þá var bæjarsjóður öll árin rekinn með um 30 milljóna króna halla á hverju ári.

Mér þótti þessar upplýsingar vera ákaflega merkilegar og minntist þess þegar Sjálfstæðisflokkurinn var fyrir síðustu kosningar alltaf að tala um "þá ábyrgu fjármálastjórn" sem þeir hefði sýnt síðasta kjörtímabil. Loksins var komin skýring á því  hvers vegna bæjarbúum fannst ekkert vera gert á síðasta kjörtímabili, það var vegna þess að síðasti meirihluti tók meðvitaða ákvörðun um að vera hálf meðvitundalaus í fjögur ár.

Við, i meirihlutanum, svöruðum því til að vissulega værum við að vinna eftir ákveðinni stefnu. Í málefnasamningu er kveðið m.a. á að auka íbúalýðræði, bæta upplýsingastreymi til bæjarbúa og fara í stefnumótunarvinnu í helst öllum málaflokkum. Við erum nú ekki búin að vera með völdin nema í um 9 mánuði og við gerum ekki allt í einu. 

Af þessu sem ég tilgreindi hér að framan, þá höfum við haldið íbúaþing, við höfum verið að gefa út upplýsingaritið Pésann og verið er að vinna í stefnumótunarvinnu í nokkrum nefndum auk þess sem að nýstofnuð tæknideild er að vinna stefnumótunarplagg til 10 ára um viðhaldsframkvæmdir í bæjarfélaginu og forgangsraða þeim.  Við höfum verið að koma til móts við fjölskyldufólk í bænum, ætlum að veita 5 ára börnum afslátt á leikskólanum, frítt er í sund fyrir yngri en 16 ára og verið er að skoða að veita afsláttarkort vegna íþróttaiðkunar fyrir börn í bænum.  Enda hefur það verið gefið út að Bolungarvík sé byggð fyrir barnafólk og þá verðum við að vinna að því að svo sé.

Ég veit að fólk er óþolinmótt og vill sjá miklu fleira að gerast og skil ég það mæta vel, því sjálf er ég óþolinmóð að eðlisfari. En ég veit líka að góðir hlutir gerast hægt og betra er að undirbúa hlutina vel áður en þeir koma til framkvæmda og það eru margir hlutir í farvatninu sem eru á undirbúiningsstigi og þurfa sinn tíma.

En nú skil ég aðgerðarleysi fyrrverandi minnihluta betur en finnst að þessi meðvitaða ákvörðun hefði átt að vera kynnt fyrir bæjarbúum svo þeir vissu hver stefna fyrrverandi meirihluta var.


Strandagaldur

Mikið ofsalega varð ég glöð þegar ég frétti af því að Strandagaldur hefði hlotið Eyrarrósina.  Þeir eiga það svo sannarlega skilið.  Undanfarin ár hafa aðstandendur Strandagaldurs byggt upp smátt og smátt heildstætt verkefni sem byggir á því sem þeir kannski eru frægastir fyrir í sögunni, galdraöldina. 

Þetta er dæmi um vel heppnað og vel skipulagt konsept, þar sem markmið eru sett, leiðir að þeim varðaðar og unnið eftir því.  Þeir hafa hvergi hvikað frá þeirri framtíðarsýn sem þeir hafa, sannfærðir um að þeir væru á réttri leið. Til þess að gera svona hluti þá þurfa menn að vera mjög þolimóðir og þrautgóðir, því svona verkefni tekur langan tíma að byggja upp og markaðssetja.

Við ættum öll að læra það af þeim, því Íslendingar eru nú einu sinni þannig að þeir vilja sá árangur og ágóða strax og hafa ekki þolinmæðina til að bíða.  Strandagaldursmenn hafa sýnt að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Til hamingju Strandagaldur!

 


Af samgöngum og fleira

Það er langt síðan ég bloggaði síðast, það hefur ekki enn komist í vana að blogga á hverjum degi.  Ég er líka búin að liggja næstum alla vikuna með flensu og hef því ekki getað hugsað nægilega skýrt til að skrifa eitthvað af viti.  Ég hef ekki fengið flensu í mörg ár og fannst ég vera óskaplega veik en er sem sagt óðum að hressast.

Samgönguáætlunin var kynnt í vikunni og sitt sýnist hverjum.  Stóru verkefnin á Vestfjörðum eru inni á næstu fjórum árum og er það vel.  Hins vegar eru verkefni á Vestfjörðum sem ekki rata inn á þetta fyrsta tímabil, dreifast á annað og það sem verst er þriðja tímabilið, þ.e. árin 2015 - 2018 og að mínu mati gengur það ekki.  Það verður að reyna að fá því breytt.  Hins vegar er þetta áætlun og ef skoðaðar eru fyrri áætlanir, þá hafa verkefni verið færð til, frestað og ný tekin inn, þannig að það er ekki öll nótt úti enn. Óshliðargöngin eru dæmi um verkefni sem tekið var nýtt inn vegna aðstæðna.

Annars vilja allir landsmenn hafa góðar samgöngur hvar sem þeir búa og er það réttmæt krafa og allir vilja að það gerist strax, en að það skuli á árinu 2007 fólki á landsbyggðinni, þ.e. Vestfjörðum ennþá vera boðið upp á að aka á malarvegum, er algerlega óskiljanlegt og óásættanlegt.  Sá kafli í Djúpinu sem eftir er er kominn af stað en eftir eru Suðurfirðirnir og Strandirnar. 

Eins og fyrri daginn verða Vestfirðingar að halda áfram að berjast fyrir tilverurétti sínum.  Þeir eru vanir því enda hafa þeir lítið annað gert undanfarin ár en að berjast fyrir honum.  Samgönguleysi er eitt af því sem gerir þeim erfitt fyrir að standa á jafnréttisgrundvelli við önnur svæði landsins, enda er svo komið að brottfluttir eru fleiri en aðfluttir og hagvöxtur er í mínus, hér er engin þensla.  Og ég spyr eins og fleiri Vestfirðingar "Hvenær er röðin komin að okkur"? 

 


Íbúaþing

Í gær birtist grein eftir mig í Morgunblaðinu þar sem ég fjallaði um markmið og tilgang íbúaþings.  Í greininni gerði ég einnig grein fyrir því hvernig svona þing fara fram og í stuttu máli má segja að á þinginu geta allir sem þangað koma, komið með sínar skoðanir á hverju sem er, annars vegar með því að skrifa á litla gula miða um hvað eina sem fólki liggur á hjarta.  Þessir miðar eru festir upp á vegg.  Hins vegar getur fólk líka tekið þátt í umræðuhópum um málefni kaupstaðarins sem tengjast aðalskipulaginu sem verið er að vinna um þessar mundir.

Það er ákaflega mikilvægt að fólk komi á þingið, láti skoðun sína í ljós og komi með tillögur um það hvernig það vill sjá bæinn okkar þróast til framtíðar.  Velferð bæjarins skiptir okkur öll máli og því fleiri sem koma að því að móta hann, þeim mun meiri líkur eru á því að ánægja verði með framtíðarþróun hans.

Starfsmenn ráðgjafafyrirtækisins Alta stýra allir vinnunni og hafa umsjón með þinginu.  Hinir kjörnu bæjarfulltrúar eiga að halda sig til hlés, verið er að fá hugmyndir hins almenna bæjarbúa.  Bæjarfulltrúarnir hafa næg tækifæri til að koma sínum hugmyndum á framfæri á fundum bæjarstjórnar.  Íbúaþingið er vettvangur bæjarbúa og brýnt að þeir noti sér hann.

Ég vil hvetja alla til að koma á þingið, taka þátt og hafa áhrif á framtíðina.


Ungmennafélagið

Í ár er merkisár í sögu Ungmennafélags Bolungarvíkur, því það er 100 ára, var stofnað 1907.  Að sjálfsögðu verður þess minnst með einhverjum hætti.  Í bígerð er að gefa út afmælisblað, verið er að taka saman myndir og skrá í grófum dráttum sögu Ungmennafélagsins.  Einnig er fjallað um það í sögu Bolungarvíkur, seinna bindi, sem Jón Þ. Þór er að vinna.  Félagið á sér merka sögu sem vert er að gefa gaum en flest allt starf þess hefur verið unnið í sjálfboðavinnu.

Í dag er erfiðara að fá fólk til starfa innan félagsins og velti ég því fyrir mér hvers vegna.  Ég held að ein skýringin sé að fólk er orðið þreytt á að vinna í sjálfboðavinnu, það hefur nóg að gera, vinnur fullan vinnudag og vill eyða tímanum með fjölskyldunni.  Einnig hefur iðkendum fækkað, börnum hefur fækkað í bænum og erfiðara er að halda úti liðum í einstökum íþróttagreinum, sérstaklega hópíþróttum.

Því hefur knattspyrnudeild Ungmennafélagsins og BÍ tekið upp samstarf í eldri flokkum og gengur það vel.  Ég held að þetta sé framtíðin, Ungmennafélagið mun taka upp meira samstarf í fleiri íþróttagreinum við nágrannasveitarfélögin.  Við viljum auðvitað að börnin okkar fái bestu þjálfun sem völ er á og geti keppt í sinni íþrótt og það getum við einungis gert með því að starfa saman á þessu sviði.  Mér skilst að félögin á Ísafirði eigi við sama vanda og við, iðkendum fækkar og erfitt er að fullmanna lið, þannig að báðir aðilar græða og börnin okkar mest.

Þá held ég að til þess að halda starfseminni í Ungmennafélaginu gangandi og að efla hana er að einhvers konar framkvæmdarstjóri vinni a.m.k 50% vinnu hjá félaginu.  Þetta er eitthvað sem vert er að skoða.


Fræðasetur Háskóla Íslands í Bolungarvík

Þau gleðilegu tíðindi bárust mér í lok desembermánaðar að fjárveitingavaldið hefði ákveðið að setja fjármagn í það að koma á fót Fræðasetri Háskóla Íslands í Bolungarvík.  Þetta verkefni er búið að vera í vinnslu í nokkur ár og í haust sótti Bolungarvík um fjárframlag til fjárlaganefndar Alþingis.

Nú hafa bæjaryfirvöld fundað með formanni stjórnar Fræðasetra HÍ, Rögnvaldi Ólafssyni og starfsmanni Fræðasetra HÍ, Ólínu Þorvarðardóttur, þar sem farið var yfir málin.  Auk þess kynnti Rögnvaldur þennan áfanga á Hornstrandarráðstefnunni á Ísafirði sl. föstudag. 

Ég hef sem formaður stjórnar Náttúrustofu Vestfjarða, ásamt Rögnvaldi, verið að vinna að þessu í a.m.k fjögur ár eða lengur.  Við sáum þessa samstarfsmöguleika á milli Fræðasetursins og Náttúrustofunnar sem gera stofnun Fræðasetursins auðveldari en ella. Enda er þetta sú leið sem farin er á fleiri stöðum en hér, t.d. á Stykkishólmi, þar er Fræðasetrið í sama húsnæði og Náttúrustofa Vesturlands og nýtir aðstöðu og annað með henni.

Sama verður uppi á tengingnum hér. Miðað er við að starfsemin hefjist um mitt ár með ráðningu forstöðumanns.  Fræðasetrin á landsbyggðinni eru fyrst og fremst rannsóknarsetur og verður áherslan hér á þessu svæði á rannsóknir í ferðamálum og ferðamennsku.  Þannig nýtast niðurstöður rannsókna beint inn í ferðaþjónustuna á svæðinu.

Einnig hefur það sýnt sig annars staðar á landinu að á svæðið hafa komið vísinda- og fræðimenn auk nema í meistara- og doktorsnámi  á vegum Háskóla Íslands til dvalar í lengri eða skemmri tíma við rannsóknir.  Bæjaryfirvöld munu leggja til skrifstofuhúsnæði og búnað fyrir væntanlegan forstöðumann auk fræðimannaíbúðar. 

Markmiðið er síðan að við þetta Fræðasetur verði starfandi 4 - 6 fræðimenn í framtíðinni.  Það er okkar að leggjast á árarnar til þess að það geti orðið en ef maður veit ekki hvert maður vill fara, þá veit maður ekki hvernig maður á að komast þangað.  Við vitum að við viljum að á ákveðnum tímapunkti verði 4 - 6 fræðimenn starfandi á Fræðasetrinu.  Við vitum líka hvernig við ætlum að ná því markmiði. Við vitum líka að þetta tekur tíma og við verðum að vera þolinmóð en ég hef trú á því að við komumst þangað sem við stefnum að.


Handbolti og íbúaþing

Sat og fylgdist með leik Íslendinga og Túnisa. Miðað við stöðuna í fyrri hálfleik var ég viss um að þeir myndu tapa leiknum en annað kom á daginn. Snéru leiknum við og sýndu mikinn karakter og það er einmitt það sem hefur vantað á undanförnum mótum. Alfreð virðist hafa tekist að byggja upp karakter í liðinu sem er að sýna sig núna.

Nú er undirbúningur íbúaþingsins sem halda á 10. febrúar nk. í fullum gangi. Ég verð að segja að ég bind töluverðar vonir til þessa þings, vona að fólk komi og taki þátt í vinnuhópunum. Menn geta komið og farið að vild frá kl. 10 - 17 og allir geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri.  Skoðuð verða kort og annað tengt aðalskiptulaginu og einnig geta menn komið með hugmyndir skrifaðar niður á litla miða sem hengdir verða upp.

Bæjaryfirvöld eru að leita eftir sjónamiðum íbúanna og þetta er viðurkennd leið til þess sem mörg sveitarfélög hafa farið.  Með þessu er verið að auka íbúalýðræðið en það var eitt af því sem nuverandi meirihluti var með í stefnuskrá sinni og lagði mikla áherslu á í kosningabaráttunni síðastliðið vor.

Hvet því fólk til að mæta og hafa áhrif til framtíðar!


Hugleiðingar á sunnudagskvöldi

Hef ekki skrifað síðan á fimmtudag. Finnst ég endilega þurfa að segja eitthvað merkilegt í hvert skipti sem ég blogga en það þarf víst ekki!  Fór á þorrablótið sem aldeilis hefur verið í fréttum undanfarið!  Skemmti mér mjög vel, sérstaklega yfir þeim atriðum þar sem gert var grín af mér en það var í fyrsta skipti sem það var gert. Og kominn tími til, eftir allt bröltið í kringum kosningarnar og allt það, ég hefði orðið móðguð ef ekki hefði verið gert grín af mér.

Mikil tíðindi hjá Framsóknarmönnum, Hjálmar náði ekki markmiði sínu og er hættur. Hvaða þýðingu það hefur verður bara að koma í ljós. Framsóknarmenn eiga í vandræðum um þessar mundir, hver skoðanakönnunin á fætur annarri sýnir algert fylgishrun og hljóta þeir að hafa áhyggjur.

Fjárhagsáætlunin fyrir árið 2007 var samþykkt sl. fimmtudag.  Staðan er ekki góð en þó ívíð betri en í fyrra. Samt er ástandið þannig að tekjur standa nokkurn veginn undir rekstri en lán þarf að taka fyrir öllum framkvæmdum, stórum sem smáum og við erum nú aðallega í þeim smáu!  Þetta er nú sá veruleiki sem sveitarfélög á Vestfjörðum standa frammi fyrir og það er alveg sama hve mikið menn reyna að hagræða í rekstri og spara, það er erfitt að gera betur nema þá að skera niður þjónustu og það vilja menn ekki gera. Sveitarfélögin hér verða að veita sömu þjónustu og annars staðar á landinu, annars er hætta á að fólk bara flytji þangað sem þjónustan er.  Þá minnka tekjurnar enn meira og þá þarf að skera enn meira niður. Þetta verður því vítahringur sem ekki er hægt að komast út úr nema tekjur aukist og það er einungis hægt með fjölgun íbúa. Einfalt að segja og skrifa en erfiðara að framkvæma!  Manni er alltaf að detta eitthvað í hug og athuga með en allt tekur svo langan tíma, bíða eftir svörum og þess háttar og á meðan líður tíminn og af honum höfum við ekki nóg.  Gaman væri að einhverjir sem lesa þetta blogg komi með tillögur! Betur sjá augu en auga.


Hagvöxtur á Vestfjörðum - hvar er hann?

 Jæja, nú ætla ég að fara að blogga um það sem kemur upp í hugann hverju sinni.  Vona ég að þetta veki upp umræður og að menn verði duglegir við að fara inn á bloggið og koma með athugasemdir og taka þátt í umræðunum. 

Ég ætla að byrja á máli sem birtist á bb.is, en síðan þessi frétt birtist hef ég mikið verið að hugsa um framtíð Vestfjarða.

 Ég varð töluvert hugsi þegar ég las á bb.is að hagvöxtur á Vestfjörðum væri -6% á meðan hann væri plústala á öðrum stöðum á landinu þar sem bullandi uppgangur og þensla er búin að vera um langt skeið.  Ekki svo að þetta hefði komið mér neitt á óvart, við sem hér búum höfum ekki fundið fyrir allri þeirri þenslu og hagsæld sem stjórnmálamenn eru sífellt að tala um. 

Ég fór aðalleg að hugsa um það hvort og þá hvenær kæmi að Norðvesturkjördæmi að fá að upplifa þá miklu uppgangstíma sem annars staðar hafa verði. Kannski er okkur ekki ætlað að upplifa þá, stundum efast ég um það.  Það virðist vera þannig að það sem gert er skili ekki þeim árangri sem til er ætlast, enda er þetta einhvern veginn allt svo máttlaust sem gert er.

Það sýnir alla vega að Vestfirðingar telja það ekki ásættanlegt, því á síðasta ári var fólksfækkun á svæðinu 1%, eina svæðið á landinu sem brottfluttir voru fleiri en aðfluttir.  Bara það ætti að segja okkur að menn líta ekki á svæðið sem ákjósanlegan búsetukost til framtíðar.

Hvað er þá til ráða?  Í fyrsta lagi þarf að fá skýr svör um það hvort þeir sem ráða í landinu hafi trú á framtíðarbúsetu á þessum kjálka.  Það þýðir nefnilega lítið að halda áfram að þrauka hér ef ráðamenn ætla sér ekkert að gera, bara láta okkur hanga á horriminni.  Ef það er einlægur vilji til að halda byggð hér, þá þarf að grípa til stórtækra aðgerða þar sem stórum fjármunum er veitt til svæðisins í samráði við heimamenn, ekki bara til vegagerðar heldur til uppbyggingar á fjölbreyttu atvinnulifi.  Við erum nefnilega að breytast úr frumvinnsluþjóðfélagi í þekkingarþjóðfélag og við hér verðum að fá að taka þátt í því.

Einhverjir myndu segja að ég væri óþarflega svartsýn og að við værum þátttakendur í þessu öllu saman.  En þetta gengur of hægt og að mínu mati þá held ég að Vestfirðingar geti ekki beðið í mörg ár eftir því að hlutirnir gerist.  Það sýnir bara fólksfækkunin, eitt prósent í ár og annað á næsta ári og svo koll af kolli, þar til ekkert er eftir.

Ég var að skoða að gamni íbúatölur og sá að um 1990 bjuggu á Vestfjörðum um 11.000 manns, í dag búa hér um 7.500, okkur hefur fækkað um rúm 3.000 manns.  Það er bara allt of mikil blóðtaka á ekki lengri tíma og þannig er það oft að þegar snjóboltinn byrjar að rúlla þá vindur hann fljótt upp á sig.

Kannski er þetta bara eðlileg þróun, fólk fer þangað sem uppgangurinn er.  Það er það sem okkur vantar, þá kemur fólk vonandi hingað - eða er það orðið of seint?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Milli himins og jarðar

Höfundur

Anna Guðrún Edvardsdóttir
Anna Guðrún Edvardsdóttir
Ég bý í Bolungarvík og er gift Kristjáni Arnarsyni. Við eigum tvo syni, Þorbjörn og Óskar. Ég er formaður bæjarráðs Bolungarvíkur og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga. Þá starfa ég sem verkefnastjóri við hin ýmsustu verkefni og er auk þess í doktorsnámi við Kennaraháskóla Íslands.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 268

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband