Útskrift og ferming

Hef ekki gefið mér tíma til að blogga undanfarið enda í nógu að snúast. Síðastliðin helgi hefur, þó ekki sé meira sagt, verið viðburðarrík hjá mér og minni fjölskyldu.

Laugardaginn 26. maí útskrifaðist eldri sonurinn sem stúdent frá Menntaskólanum á Ísafirði og daginn eftir, sunnudaginn 27. maí fermdist sá yngri í Hólskirkju.

Dagskrá fjölskyldunnar var því þéttskrifuð þessa tvo daga og dagarnir á undan fóru í undirbúning. Við tókum útskriftardaginn snemma, höfðum okkur til og vorum mætt tímanlega í Ísafjarðarkirkju til að fá góð sæti. Athöfnin var mjög ánægjuleg með góðri blöndu af tónlist og mæltu máli. Eftir athöfnina fórum við til Árnýjar ljósmyndara þar sem teknar voru útskriftar-, fermingar- og fjölskyldumyndir, nokkurs konar 3 fyrir 1!  Um kvöldið var síðan hátíðarkvöldverður í íþróttahúsinu á Ísafirði með útskriftarnemum og aðstandendum þeirra. Þetta var mjög gaman en sökum anna daginn eftir vorum við ekki lengi, þótt við hefðum gjarnan viljað það.

Sunnudagurinn 17. maí var líka tekinn snemma, byrjuðum við hjónin á því að skræla kartöflur í kartöflusalatið. Síðan höfðum við okkur til og vorum mætt tímanlega í kirkjuna. Fermingin tókst í alla staði vel og stóð strákurinn sig vel. Eftir hana rukum við heim því við áttum eftir að undibúa allt. Á mettíma gerðum við kartöflusalat, salat og sósur, náðum í stóla og borð og kl. 15.30 var allt tilbúið enda ekki seinna vænna því veislan hófst kl. 16.00.

Um var að ræða bæði útskriftar- og fermingarveislu og verð ég að segja að allt tókst þetta ljómandi vel, enda með vana menn mér við hlið sem grilluðu sem mest þeir máttu. Mikill fjöldi gesta mætti í veisluna og þótti okkur mjög vænt um það hve margir af ættingjum komu að. Allir komust fyrir í húsinu þótt þröngt væri á þingi en mágkona mín sagði að svona ættu fermingarveislur að vera, þröngt á þingi, þannig að allir blandist vel og hafi samskipti og verða hreinlega að ræða saman. Og það tókst mjög vel.

Dagurinn í dag hefur farið mest í afslöppun því við þrifum eftir veisluna í gær. Ég verð örugglega nokkra daga að ná mér, einhvern veginn fannst mér þetta léttara fyrir sex árum en það er sennilega aldurinn.


Menningarsamningur Vestfjarða

Í gær, 1. maí, var stór dagur. Ekki einungis vegna þess að það er baráttudagur verkalýðsins heldur einnig vegna þess að skrifað var undir menningarsamning Vestfjarða við hátíðlega athöfn að Staðarflöt. Einnig var skrifað undir menningarsamning fyrir Norðurland vestra.

Við keyrðum þrjú frá norðusvæði Vestfjarða, ég, Gunnar Hallsson, formaður menningarráðs og Albertína Elíasdóttir, starfsmaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og vorum auðvitað mætt manna fyrst á staðinn. Einnig voru þarna fulltrúar suðursvæðis Vestfjarða, Reykhóla og Stranda auk fjölmenns liðs frá Norðurlandi vestra. Þá voru mættir fulltrúar frá menntamála- og samgönguráðuneyta, auk samgönguráðherra en þessi ráðuneyti standa að þessum samningi auk Fjórðungssambandsins fyrir hönd sveitarfélaganna á Vestfjörðum.

Þessi samningur felur í sér að ríkisvaldið setur rúmlega 90 milljónir króna næstu þrjú ár og sveitarfélögin það sem þau hafa verið að leggja til menningarmála. Þá er ætlunin að ráðin verði menningarfulltrúi og standa sveitarfélögin að rekstri skrifstofu hans. Nýtt menningarráð verður skipað sem setur reglur um það hvernig staðið verði að úthlutun fjármagns til menningarverkefna á svæðinu. Vel skipulögð og vel rökstudd verkefni munu hljóta styrki, þannig hefur það verið, t.d. á Austurlandi og Vesturlandi þar sem reynsla er komin á framkvæmd þessara menningarsamninga.

Markmiðið er að efla menningarlíf og menningartengda ferðaþjónustu og skapa störf á svæðinu. Bæði á Austurlandi og Vesturlandi hefur þetta orðið raunin og hvers vegna ætti það ekki að verða þannig hjá okkur. Ef við stöndum saman um að láta þennan menningarsamning vinda upp á sig og fá inn í hann aukið fjármagn  munum við ná því marki.


Hvert stefnir?

Nú eru nokkrar vikur liðnar síðan ég bloggaði síðast. Mér finnst einhvern veginn að ég verði að hafa eitthvað merkilegt að segja til þess að blogga! Sennilega er ekkert af því sem sett er fram hér nokkuð merkilegt en fyrir mér verður það að vera þannig.

Nú er skýrsla Vestfjarðanefndarinnar svokölluðu komin fram og kennir þar ýmissa grasa. Það fyrsta sem kemur í hugann við lestur hennar er að flestar tillögurnar hef ég séð eða heyrt um áður. Sumar eru beint úr Vaxtarsamningi Vestfjarða, aðrar hafa verið í umræðunni við ráðamenn á undanförnum árum. Það sem er nýtt í skýrslunni eru tilmæli nefndarinnar um að skoða möguleika á að setja niður á Vestfirði olíuhreinsunarstöð.

Auðvitað verðum við Vestfirðingar að skoða það af fullri alvöru, við getum ekki annað. Tillagan gengur út á það að ef þessi starfsemi verði sett hér á laggirnar þá fylgi því um 500 störf. Við höfum verið að benda á þá staðreynd að fólksfækkun er hér á svæðinu og hagvöxtur neikvæður. Þess vegna verðum við að skoða allt það sem gæti haft það í för með sér að hér yrði fólksfjölgun og hagvöxtur yrði jákvæður. Að mínu mati ber okkur skylda til þess.

Við stöndum á tímamótum núna og á næstu vikum verðum við að taka afstöðu hvert við viljum stefna. Svo einfalt er það en samt svo flókið, því að mörgu er að hyggja og mörg sjónarmið eiga eftir að koma fram sem taka verður tillit til.


Ungmennafélagið 100 ára

Í gær 1. apríl varð Ungmennafélag Bolungarvíkur 100 ára, var stofnað þann 1. apríl 1907. Félagið bauð bæjarbúum til afmælisfagnaðar í félagsheimilinu Víkurbæ í gær og þar sem að ég er formaður Ungmennafélagsins kom það í minn hlut að skipuleggja þann fagnað. Ég fékk þó góðan stuðning frá stjórn og foreldrum yngri flokka í knattspyrnu.

Afmælisfagnaðurinn tókst ljómandi vel og komu tæplega 200 manns í afmælið. Félagið fékk margt góðra gjafa, aðallega fjármuni sem voru gefnir til uppbyggingar á vallarsvæði og við vallarhús félagsins. Alls var félaginu gefnar tæpar 4 milljónir sem koma sé ákaflega vel í þeirri uppbyggingu sem fara á fram á því svæði.

Ég gerði að umtalsefni í upphafsræðu minni hve margt hefur breyst í starfsemi ungmennafélaganna á þessum tíma. Hér áður fyrr stóðu ungmennafélögin fyrir ýmis konar uppbyggingu á sínum svæðum og stóðu fyrir öflugu félagslífi. T.d. stóð Ungmennafélag Bolungarvíkur fyrir byggingu félagsheimilsins í Bolungarvík. Allt voru þessi verk unnin í sjálfboðavinnu og taldi enginn það eftir sér að vinna slíkt. Að auki tóku ungir sem aldnir þátt í starfi ungmennafélaganna

Nú í dag er samkeppni um afþreyingu orðinn svo mikil að erfitt er að fá fólk til starfa og iðkunar. Þá hefur iðkendum í Ungmennafélaginu fækkað og er það fyrst og fremst vegna fólksfækkunar í Bolungarvík og fækkunar barna, því í dag á fólk færri börn en áður. Þetta er að gerast um allt land, ekki bara hjá okkur. Deildir félagsins hafa brugðið á það ráð að efla samvinnu við nágrannasveitarfélögin, því hvert félag um sig á erfitt með að manna lið í hópíþróttum. Í knattspyrnunni er keppt undir merkjum BÍ/Bolungarvík og sama verður sennilega uppi á teningnum hjá körfuknattleiksdeildinni.

Þetta er þróun annars staðar líka, hver þekkir ekki Hamar/Selfoss, Ármann/Þróttur og Grótta/KR. Stærri sveitarfélög eiga líka í vandræðum í ýmsum íþróttagreinum.  Þetta er ekkert endilega slæmt fyrir íþróttalífið, ég tel að aukin samvinna á þessu sviði sem og öðrum sé af hinu góða og skapi meiri fjölbreytni.

Við lifum í síbreytilegu þjóðfélagi sem er í sífelldri og örri þróun. Við verðum að fylgja með, annars dögum við uppi eins og hvert annað nátttröll og lendum undir. Því fyrr sem menn gera sér grein fyrir því, því betra. Ekkert verður eins og það var og það sem er í dag verður ekki eins á morgun.

En þannig er Ísland í dag.


Málefni innflytjenda og fjölgun opinberra starfa

Þessa dagana stendur yfir ráðstefna á Ísafirði um málefni innflytjenda sem ber yfirskriftina "Eru innflytjendur hvalreki eða ógn fyrir samfélögin á landsbyggðinni." Á ráðstefnunni tala bæði innlendir og erlendir fræðimenn og aðrir sem starfa að þessum málum í sínu heimalandi.

Í dag voru áhugaverðir fyrirlestrar, tveir þeirra fjölluðu um hvað gerðist á Nýfundnalandi þegar þorskstofninn hrundi. Mikið atvinnuleysi er á því svæði, unga fólkið er flutt í burtu og þeir sem eftir eru vinna annars staðar í Kanada hluta af árinu, eru farandverkafólk á lágum launum, vinna þau störf sem heimamenn vilja ekki vinna, t.d. almenn verkamannastörf.

Einnig var haldið íbúaþing þar sem tveir þingmenn, Anna Kristín Gunnarsdóttir og Magnús Þór Hafsteinsson,  félagsmálaráðherra, Magnús Stefánsson og Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sátu í pallborði og svöruðu fyrirspurnum úr sal sem voru fjölmargar.

Félagsmálaráðherra setti íbúaþingið og tilkynnti að hann hefði ákveðið að setja eitt stöðugildi upplýsingafulltrúa við Fjölmenningarsetrið til viðbótar við þau 1,75 sem þar eru fyrir og efla ráðgjafar-og lögfræðiþjónustu við Alþjóðahús. Persónulega hefði ég vilja sjá að félagsmálaráðherra hefði tekið af skarið og lýst því yfir að Fjölmenningarsetrið yrði landsmiðstöð í málefnum innflytjenda á Íslandi og fjölgað störfum þar myndarlega.

Þá tilkynnti hann um stofnun þróunarsjóðs upp á kr. 10 milljónir sem Háskólasetur Vestfjarða héldi utan um. Það þýðir væntanlega að hægt verði að sækja um styrki til ýmissa þróunarverkefna á sviði innflytjendamála og er það vel. Einng tilkynnti hann að komið verði af stað tilraunaverkefni á sviði aðlögunar innflytjenda í Fjarðarbyggð og í Bolungarvík. Auðvitað er ég ánægð með það og vona að slíkt starf sé komið til að vera.

Það sem ég velti fyrir mér er hvaða þýðingu þessi fjölgun opinberra starfa hafi fyrir okkur hér á þessu svæði. Jú, vissulega er þetta góð byrjun en betur má ef duga skal, fleiri störf þarf að flytja hingað og það er hægt með þvi að styrkja þær opinberu stofnanir sem hér eru með verulegri fjölgun verkefna sem aftur þýðir að ráða verði fleira starfsfólk til að sinna þeim. Einnig þarf að huga að flutningi verkefna og starfa á vegum ríkisins sem hæglega geta verið unnin á landsbyggðinni.

Að mínu mati er þetta vel gerlegt, menn verða bara að vilja fara þá leið.


Pólitík og formúlan

Mig langar að byrja bloggið á því að óska honum Ómari Ragnarssyni, frænda mínum, til hamingju með nýstofnaðan flokk. Hann og fylgismenn hans voru víst með blaðamannafund núna áðan og heyrði ég aðeins um stefnumál flokksins og eins og gefur að skilja skipa umhverfismál stóran sess hjá flokknum. Ómar hefur alla tíð borið hag náttúru landsins fyrir brjósti.  Hann þekkir það manna best og hefur kynnt ýmsa af afskekktustu stöðum þess fyrir landsmönnum. Fyrir vikið þekkjum við landið okkar betur. Því er það í rökréttu framhaldi af því baráttumáli hans að halda landinu eins og það er, leyfa náttúru þess að njóta sín og skemma það ekki frekar en orðið er, að hann fer þessa leið og ég tek ofan fyrir þeim sem fylgja sannfæringu sinni og berjast fyrir því sem þeir hafa trú á. Þannig þyrftu fleiri að hugsa.

Ég er ein margra kvenna sem fylgist með formúlu 1 í sjónvarpinu og minn draumur er að fara á eina keppni, helst til Monakó. Minn maður er Alonso, finnst hann frábær ökumaður enda hefur hann orðið heimsmeistari tvisvar í röð. Gaman verður að fylgjast með honum í ár, en hann fær mikla keppni, því nýliðinn Hamilton kemur sterkur inn. Það sem ég hef hins vegar aldrei almennilega skilið er af hverju ekki fleiri konur eru fengnar til að koma í sjónvarpið í beinar útsendingar frá formúlunni, það eru alltaf einhverjir karlar (með fullri virðingu fyrir þeim). Konur hafa alveg skoðanir á þessum málum og hafa ýmislegt til málanna að leggja þegar kemur að akstursíþróttum. Kem þvi hér á framfæri!


Umhleypingar

Það er nú ekki ofsögum sagt að marsmánuður sé búinn að vera ansi umhleypingasamur og oft á tíðum mikill ofsi í veðrinu, alla vega fyrir vestan. Ég er komin á þá skoðun að þessi mánuður sé sá leiðinlegasti hvað veðráttu varðar og undanfarin ár hefur hann verið sá erfiðasti. Janúar og febrúar sem voru alltaf leiðinlegastir eru bara orðnir skaplegir og oft bjóða þeir upp á mjög fallegt og gott veður.

Þetta tíðarfar fer nú að verða gott og flesta þyrstir í vorið. Ég er ekki frá því að með aldrinum þá skipti tíðin  og veðurfarið meira máli en áður. Þung færð og umhleypingar á maður erfiðara með að sætta sig við en áður. Hér áður fyrr skipti það mann engu hvernig veðrið var en núna er það eitt af því sem maður vill að sé í lagi.

Ég átti að vera á morgun á málþingi á Ólafsvík en því var frestað sökum óveðurs og ófærðar. Málefni innflytjenda áttu að vera til umræðu þar og ætlaði ég að flytja smá erindi um stefnumótun og upplýsingagjöf til innflytjenda. Mín skoðun er sú að þessum málum þurfi að sinna betur en gert er. Engin samræmd stefna er til um hvernig taka skuli á móti innflytjendum, hvernig og hver eigi að veita þeim upplýsingar um réttindi sín og skyldur.  Sveitarfélög eru að reyna að sinna þessum hlutum eftir bestu getu en stefnuna vantar og hana verða stjórnvöld að setja.

Það er von mín að nýji vefurinn sem opnaður var, island.is, komi til með að hafa einhver áhrif á að þessi mál varðandi upplýsingagjöf til innflytjenda komist í betra horf.


Átak á Vestfjörðum

Það sem vakti athygli mína var frétt á bb um niðurstöður lítillar könnunar sem þeir voru með á vefnum sínum. Þar var fólk spurt að því hvort það hefði trú á átaki af hálfu stjórnvalda vegna atvinnu- og byggðamála á Vestfjörðum. Skemmst er frá því að segja að mikill meirihluti þeirra sem svöruðu hefur ekki trúa á þessu átaki og telur það muni ekki skila Vestfirðingum neinu.

Um 600 manns svarið þessari spurningu og er það frekar mikið að mati þeirra sem til þessara mála þekkja og því ætti það að vera umhugsunarefni fyrir stjórnvöld að það virðist sem Vestfirðingar hafi ekki trú á að menn ætli að standa við stóru orðin um að nú sé röðin komin að Vestfjörðum, það hafa þeir heyrt allt of oft.

Ýmsar aðgerðir hafa verið reyndar til að snúa þróun fólksfækkunar og einhæfni atvinnulífsins við en þær aðgerðir hafa því miður ekki dugað. Það þarf einhverja nýja hugsun inn í byggðamálin, skoða þarf aðrar leiðir en þær sem farnar hafa verið, t.d. ýmsar leiðir sem farnar eru í öðrum löndum, t.d. skattaívílnanir. Við þurfum að þora að nota þær aðferðir sem reynst hafa vel annars staðar, þó þær þýði að sett verði meiri kraftur í Vestfirði en aðra landshluta. Oft var þörf en nú er nauðsyn og það held ég að landsmenn skilji.


Vangaveltur í helgarlok

Nú er ég búin að vera hér fyrir sunnan í nokkra daga og dvel hjá mömmu. Ég kom keyrandi á miðvikudaginn á litlu sítrónunni hennar tengdó. Ferðin gekk ágætlega, að vísu gekk á með éljum og á heiðum og hálsum var skafrenningur, en það er seigt í litlu tíkinni hennar tengdó, hún sveif yfir allt og skilaði mér heilli til höfuðborgarinnar.

Ég ætlaði að reyna að nota tímann og vinna í sambandi við doktorsverkefnið en ýmislegt hefur nú sett strik í reikninginn og þá aðallega fundarhöld og annað stúss. Er að fara á miðvikudaginn til Ólafsvíkur á ráðstefnu um málefni innflytjenda og mun flytja þar fyrirlestur um hvernig þeim málum er háttað á Vestfjörðum, kem í stað Elsu Arnarsdóttur, forstöðumann Fjölmenningarseturs sem átti að vera á ráðstefnunni en kemst ekki.

Fór í gærkveldi með syni mínum og tengdadóttur, Sigrúnu Maríu Einarsdóttur, á myndina um Idi Amin og ég verð að segja að myndin var frábær og er leikur Whitaker magnaður. Ég var skíthrædd við hann þó ég sæti á aftasta bekk!

Hjó eftir því í gær í fréttunum að á endaspretti þingsins var samþykkt frumvarp sem Össur Skarphéðinsson var flutningsmaður að. Í því felst að skoðaðir verða sérstaklega möguleikar til að flytja opinber störf út á land og gera það að einhverri alvöru. Það að flytja eitt og eitt starf með nokkurra ára millibili til landsbyggðarinnar skilar litlu, þetta verður að vera með miklu öflugri og markvissari hætti. Þá á ég ekki við að stefna eigi að því að flytja heilu stofnanirnar hreppaflutningum heldur setja ný störf á landsbyggðina og efla ýmsar stofnanir sem eru á svæðunum, gera þær stærri og öflugri.

Fyrir mér eru kosningamálin í vor byggðamál með byggð á Vestfjörðum í forgrunni og ég skora á Vestfirðinga að halda þeim málum á lofti við frambjóðendur og fá fram hjá þeim skýr svör um hvað þeir ætla að gera komist þeir í þá stöðu að hafa áhrif.


Á að byggja allt landið?

Ég var ákaflega ánægð þegar hinir almennu bæjarbúar blésu til fundar í Hömrum um síðustu helgi. Þó svo að það hafi litið út eins og þeir nýliðnu atburðir hafi haft þessi áhrif þá er það ekki svo. Ég hef fundið fyrir stigvaxandi gremju Vestfirðinga vegna þeirrar stöðu sem fjórðungurinn er í undanfarið, þannig að þetta kemur mér ekki á óvart, er í raun í rökréttu framhaldi af þeirri gremju og nú reiði sem býr í Vestfirðingum.

Allt sem fram kom á fundinum og hefur verið að koma fram í fjölmiðlum er það sem sveitastjórnarmenn hafa verið að ræða um, sín á milli og við stjórnvöld en það er eins og þeir hafi ekki náð eyrum ráðamanna, við erum jú alltaf að nöldra og kvarta, er það ekki? En þegar hinir almennu bæjarbúar segja það sama þá er eftir því tekið og það er vel.

Það eina sem við Vestfirðingar viljum fá svör við er hvort að halda eigi úti byggð á Vestfjörðum og svari menn því játandi þá þarf að fara í markvissar aðgerðir til þess að svo megi verða. Þá verða stjórnvöld að hlusta á þær tillögur sem sveitastjórnarmenn hafa sett fram um það hvernig efla megi svæðið og fjölga fólki þar. Vilji menn hins vegar ekki halda úti byggð á Vestfjörðum, þá verðum við að fá að vita það og fara í aðgerðir þannig að fólk geti horfið með reisn frá þessum stöðum. Eins og staðan er í dag er verið, með aðgerðarleysi, að láta byggðirnar deyja hægum dauðdaga.

En þá erum við komin að hinni siðferðilegu spurningu, er rétt að leggja byggðir í eyði? hvernig á að gera það, hvað græðum við á því og hverju töpum við? Ef við föllumst á að það sé í lagi, munum við þá staðnæmast við eitt svæði, hvenær kemur að því að allt landið leggist í eyði, er ekki betra að flytja okkur til fjölmennari landa, erum við ekki allt of fá til að halda upp velferðarþjóðfélagi? Það fannst dönum í eina tíð og lögðu til að við flyttumst á jósku heiðarnar. 

Ég er á því að auðvitað eigi að halda öllu landinu í byggð, við munum tapa meiru heldur en við græðum. En það er heldur ekki hægt að koma fram við landsbyggðina eins og þar búi annars flokks þjóðfélagsþegnar, jafnræði verður að ríkja milli allra þegna landsins, ekki bara sumra.


Næsta síða »

Um bloggið

Milli himins og jarðar

Höfundur

Anna Guðrún Edvardsdóttir
Anna Guðrún Edvardsdóttir
Ég bý í Bolungarvík og er gift Kristjáni Arnarsyni. Við eigum tvo syni, Þorbjörn og Óskar. Ég er formaður bæjarráðs Bolungarvíkur og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga. Þá starfa ég sem verkefnastjóri við hin ýmsustu verkefni og er auk þess í doktorsnámi við Kennaraháskóla Íslands.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband